Sunday, September 16, 2007

Grísir og klæðskiptingar

Síðustu daga hef ég verið að gera eitthvað með Mariu frá Mexico. Við eigum alveg furðulega margt sameiginlegt og höfum yfirleitt svipaðar skoðanir og smekk. Svo við náum mjög vel saman og ég er þá búin að eignast mína fyrstu vinkonu hér :) Hún veit rosalega mikið um tónlist og er mikill Bjarkar aðdáandi. Ég er mjög ánægð með það og ætla að nýta mér það í botn. Við ætlum á Starsailor tónleika í Október. Meira að segja er tónleikastaðurinn í 5 mínútna göngufjarlægð. Við kíktum aðeins á pöbb í gær og á föstudagskvöld. Vorum samt frekar rólegar. Djammið hérna er soldið sérstakt. Það loka náttúrulega allir pöbbar kl. 1 en það eru einhverjir staðir opnir til 3. Ég þarf að reyna að venjast því að byrja djamm miklu fyrr en áður. Svo hef ég tekið eftir að alls konar búningar eru mjög vinsælir. Líklega eru þetta yfirleitt gæsapartý og námsmenn í einhverju furðufatadæmi. Maður fer ekki út á kvöldin án þess að sjá hópa í einhverjum búningum. Ég hef nokkrum sinnum séð grísi, stráka í kjól og stelpur í jakkafötum, hjúkkur ofl.
Við kíktum aðeins í bæinn í gær. Fórum aðeins í búðir (það átti að vera fyrir hana en ekki mig sko... humm humm....segjum ekki meir). En þessi borg er alveg rosalega flott. Gamli hluti bæjarins er rosalega sjarmerandi og creepy líka. Enda er mikið af draugasögum og svona draugatúrum hérna. Við fórum í Greyfriars kirkjugarðinn í gær en þar eru leiðin og grafhýsin í kringum 300 ára gömul. En þetta er svo geggjað flott og óhuggulegt á sama tíma. Ég ætla að taka myndir af þessu og setja á síðuna við tækifæri. Við kíktum líka á líkamsræktarstöð skólans og hún er mjög flott. Planið er að byrja í næstu viku en sjáum til.
En lífið hjá mér hérna er soldið eins og þessi pistill. Út um allt og ekkert komið í fastar skorður. Það breytist í næstu viku og ég get sagt í hreinskilni að ég er þokkalega kvíðin fyrir að byrja í skólanum. Þetta verður ekkert grín held ég. En annars líst mér vel á námið svo það er gott.
Ég hef ekki hitt neina Íslendinga í skólanum eða neins staðar. Reyndar heyrði ég í Íslendingum í fyrsta skipti í gær í miðbænum.
Jæja, þetta er gott í bili. Ég er ansi hrædd um að ég fái ekki nein rithöfundaverðlaun fyrir þessa pistla. Gott að ég er gædd mörgum öðrum hæfileikum ;)
Cheers.

2 comments:

Þórunn said...

Mikið agalega hljómar þetta allt vel. þetta verður eitt ævintýri, heyrist mér. Svo mæli ég eindregið að þú fáir þér einn búning og skellir þér í bæinn. Gæti verið upphaf af alveg glimrandi kvöldi. Allavega myndi ég nota tækifærið ;)
Stórt knús, Þórunn

Pretty Pig said...

Ég fer bráðum að flytja út til þín. Það eina sem gerist í vinnunni hjá mér er að ég fæ sendar níðvísur um mig. Skemmtilegt fólk hér á hjara veraldar.
Kyss og knús, knús og kyss.:oξ)