Tuesday, April 29, 2008

Betri heilsa

Ætli ég byrji ekki á að svara spurningunni sem brennur á öllum. Er heilsan betri? Já, ég er öll að koma til. Er með ljótan hósta en háls og eyrnaverkur farinn. Fór til læknis í fyrradag sem sagði að þetta væri bara týpísk vírussýking. Og ekki orð um það meir. Mamma og Anna Guðrún eru að koma í heimsókn á fimmtudaginn svo það er bara gleði framundan.
Síðastliðin helgi var ekkert sérstök. Planið mitt var náttúrulega að fara að djamma en það var ekki í boði. Hluti af vinahópnum fór nú samt og ákvað að vera í eldhúsinu okkar. Ég var algert hræ svo ég vildi bara vera í friði (og leit út eins og dauðinn sjálfur). Þessar skepnur reyndu allt til að fá mig fram í eldhús. Ég skellti að lokum á mig maskara og druslaðist inn í eldhús þar sem fólk var í hinu ýmsasta ástandi. Sem betur fer fóru þau fljótt í bæinn. Daginn eftir var María veikari en ég sökum þynnku. Allavega verður nú bætt úr þessu á næstunni. Sem betur fer er fólk að djamma hvenær sem er vikunnar og alltaf til í tuskið.

Friday, April 25, 2008

Ái

Þetta verður vælupóstur svo ef þið nennið ekki að hlusta á aumingjaskapinn í mér skuluð þið ekki lesa lengra (Kristín Ó sérstaklega). Semsagt í dag kláraði ég síðasta verkefni annarinnar sem ætti að gleðja mig svakalega. En ég ætla að byrja á að lýsa vikunni. Á síðasta föstudag voru ritgerðaskil og líka í dag. Á miðvikudaginn var haldin poster conference fyrir alla meistaranemana. Við bjuggum til plakat sem lýsti lokaverkefninu okkar, plakatið var hengt upp í skólanum og svo áttum við að standa við það og svara spurningum og útskýra. Ég var náttúrulega svakalega stressuð fyrir þetta, aðallega vegna þess að 3 deildarstjórar áttu að spyrja okkur útúr og gefa einkunn. Semsagt, þetta gekk bara ágætlega. Það voru fáir þarna aðrir en nemendurnir sjálfir og nokkrir kennarar. Yfirheyrslan var svakalega stressandi samt. Ég var bara ánægð með að koma einhverju frá mér. Ég fékk samt spurningar sem ég var engan veginn undirbúin undir og bara gat ekki svarað. Ég held samt að það hafi ekki verið neitt mál. Allir fengu erfiðar spurningar og markmiðið var í raun ekki að reyna að láta okkur standa á gati. Mikið var ég fegin þegar þetta var búið. Þá var bara eftir að skila inn einni ritgerð sem ég reyndar átti eftir að vinna mikið í. Daginn eftir varð ég lasin. Ég hef hingað til ekki þurft að pína mig áfram lasin en þetta var hryllingur. Ég var að rembast við að læra og taka hvíldir inn á milli. Síðustu nótt svaf ég lítið vegna ritgerðarinnar og veikinda. En ritgerðin kláraðist þó á tíma og var skilað. Núna langar mig bara að sofa en mér er of illt. Ég er með einhvers konar hálsbólgu svo þegar ég kyngi er eins og ég sé að kyngja rakvélarblöðum og mér er illt í eyrunum. Svo er ég hóstandi líka. Stærstu skammtar af paracetamol virka ekki. Ég og María vorum búnar að plana laugardaginn til að fagna því að ég var búin. Það verður líklega ekkert af því eins og ástandið er núna. Ég vorkenni mér allavega svakalega og þrái ekkert heitar en sársaukalausan langan svefn. Og hér lýkur ömurlegustu bloggfærslu aldarinnar.

Saturday, April 12, 2008

Save Iceland

Ég er stödd í kjallara skólans sem og aðra daga. Ég er ekki ein sem betur fer. Það munar miklu að vera í kringum aðra þegar maður er að læra svona lengi. Jæja, R er búið svo ég get skilað því inn. R er semsagt tölvuforrit fyrir tölfræði. Eins og SPSS nema við þurfum að forrita formúlur og skipanir. Þið getið ímyndað ykkur að ég er náttúrulega á grænni grein með það. Jæja, það kemur í ljós hvernig það verður. Næst eru tvær ritgerðir, poster conference og svo búið. Tja....þá tekur lokaritgerð við. Ég skrapp út í mat og sá að skotar ætla sér að fjölmenna til Íslands til að mótmæla hálendisframkvæmdum. Allavega eru plaköt hingað og þangað um bæinn "Save Iceland". http://www.savingiceland.org/ fyrir áhugasama. Það er gott að einhverjum er annt um náttúruna okkar.
Jæja, ég fæ bjór klukkan 10 með þreyttum skólafélögum....ahhhhh.....get ekki beðið.
P.s. er orðin pepsi-max-isti. How about that.