Sunday, August 24, 2008

Síðasta blogg frá Edinborg

Nú er bara komið að lokum hjá mér í Edinborg. Ég skilaði inn ritgerðinni á föstudaginn og á fimmtudaginn fer ég heim. Næstu dagar fara í að skipuleggja heimferðina, pakka, senda dót o.s.fr.v. Mér finnst rosalega skrítið að fara aftur heim. Í rauninni hefði ég viljað vera hérna í ár í viðbót. En að sumu leyti langar mig líka heim. Það eru margir sem ég sakna. Þetta var samt alveg magnað ár.
Jæja, hlakka til að sjá ykkur heima ;)

Wednesday, August 6, 2008

Þunn á miðvikudegi

Ritgerðin mjakast. Það er ansi stutt í heimkomu og því miður er kominn tími til að kveðja. Nú er fólk byrjað að tínast aftur heim. Ég er ekki tilbúin að kveðja en það er víst óumflýjanlegt. Rosalega á ég eftir að sakna alls hérna en þó auðvitað helst fólksins. Anyways, í ágúst eru alls kyns hátíðir í gangi í Edinborg. Bærinn iðar af lífi og það er fólk alls staðar. Í garðinum við skólann minn er búið að setja upp Spiegel tent. Það eru tónleikar og ýmislegt í gangi en það er líka hægt að sitja þar og sötra bjór. Rosa kósý. Við gerðum það í gær. Drukkum bjór frá klukkan 6 til 12. Þar sáum við leikarann Neil Patrick Harris. Við erum allavega 80% viss um að þetta var hann. Joy fór og spurði og hann sagðist vera maðurinn. Elaine (gataða konan) er líka alltaf þarna. Alltaf gaman að sjá hana. María var kynnt fyrir henni um daginn. Ég var bara abbó að hafa misst af því. Gengur fólki eitthvað að finna fyrir mig vinnu? Hafið í huga að ef ég fæ ekki vinnu heima fer ég hugsanlega aftur út. Think about that. Þetta átti að vera hvetjandi en hugsanlega mun það letja einhverja.

Monday, July 21, 2008

Lokaritgerð og Írlandsferð

Nú er allt á fullu í ritgerðarskrifum. Þetta verður tæpt. Ég fór til Írlands síðustu helgi. Það var svakalega fín ferð. Ég hugsaði ekkert um Edinborg eða skólann sem var velkomin tilbreyting. Ferðalagið byrjaði og endaði heima hjá Joy í bænum West Port (Mayo hérað). Húsið/höllin var rosa flott og umhverfið líka. Draughrædda ég var þó kannski ekki alveg sátt að vera ein þarna enda var fólk hengt og skotið á landareigninni áður fyrr. Á laugardeginum fóru Joy og Conor í brúðkaup og sem betur fer létu þau sækja mig seinna um kvöldið. Þetta virtist hefðbundið en þó fjörugt brúðkaup. Við dönsuðum þar eitthvað fram á nótt. Á sunnudeginum keyrðum við til Killorglin (Kerry hérað) þaðan sem Conor er. Um kvöldið var náttúrulega farið á pöbb. Ég fékk líka að skoða safn sem afi hans Conors á. Þar er helst að sjá gömul sirkusplaköt og minjagripi frá Puck Fair (www.puckfair.ie). Á mánudegi keyrðum við til Cork þar sem við hittum marga vini þeirra. Það var náttúrulega drukkið um kvöldið. Á þriðjudegi var aftur keyrt til West Port og svo flogið aftur heim á miðvikudegi. Mér fannst West Port svakalega sætur bær og ég gæti líka hugsað mér að heimsækja Cork aftur.
Um helgina fæ ég heimsókn frá Guðrúnu og Önnu Guðrúnu. Ég vona að ég geti eitthvað sinnt þeim. Þær sjá mig allavega á nóttunni þar sem þær gista hjá mér :) Slæmu fréttirnar eru að herbergið mitt er grútskítugt og það eina sem ég get boðið er uppblásin dýna. Góðu fréttirnar eru hins vegar að veðrið er dásamlegt núna og spáin er góð (ennþá allavega) OG það eru útsölur í gangi. Ég fékk einmitt eitt skópar í gær á útsölu (ég sver ég hef ekkert verslað föt í marga mánuði). Mér finnst ég orðin svo fullorðin....ég er byrjuð að drekka rauðvín. Gerði líka tilraun til kaffidrykkju en það gekk heldur verr. Ég er líka búin að auka Pepsi-neysluna töluvert. Næst byrja ég að reykja enda sú eina sem reyki ekki.

Monday, July 7, 2008

Þreytt mús

Þessi færsla verður bara stutt. Ég er ægilega þreytt eftir að hafa verið að berjast við að skrifa innganginn á ritgerðinni minni (sem er því miður ekki tilbúinn enn). Anyways, fórum á Radiohead síðasta föstudag. Það voru rosa fínir tónleikar og ég kann mun betur að meta þá núna. Tónleikarnir voru í Glasgow svo ég sá örlítið meira af borginni. Ég hef enn ekki dröslast í ferðalag þangað þó hún sé bara í klukkutíma keyrslu frá Edinborg. Ég ætti náttúrulega bara að skammast mín (og geri það). Hey, ég veit þó hvar Primark er. En Glasgow er allt öðruvísi en Edinborg og líklega ekki fyrir alla. Miklu meiri orka og hasar finnst mér. En mér líst vel á hana og langar þangað. Svo erum við komnar með nýjan sambýling........mús. Eða að öllum líkindum mýs. Við vissum að það væru mýs í húsinu en það er ekki fyrr en núna að við sáum að okkar íbúð var ekki undanskilin. María horfðist í augu við eina í eldhúsinu. Við ætlum bara að láta þær eiga sig því kenningin er að þær séu í veggjunum og þær eru greinilega ekkert voða mikið á ferðinni. Við flytjum líka út eftir tæpa 2 mánuði svo hver nennir að æsa sig yfir þessu (ekki ég allavega). Það er svakalega merkileg kona sem býr hérna í Edinborg og hana má oft sjá á the Royal Mile. Þið getið lesið um hana hér http://en.wikipedia.org/wiki/Elaine_Davidson. Semsagt hún er "the most pierced woman" í heimi. Flesta lokkana er hún með á....... Engin verðlaun fyrir að fatta svarið því það kemur fram á Wikipedia. Ekki veit ég hvernig maður kemur fyrir 500 lokkum á.........Hún er ansi skrautleg og alltaf gaman að sjá hana.

Að lokum, ég er að fara til Írlands næstu helgi með Joy og Conor. Ég veit við keyrum eitthvert heim til Joy en ég hef bara ekki hugmynd hvar það er og er slétt sama. Ég er að fara í frí og það til Írlands þar sem Leprechauns búa og konurnar líta út eins og karlar. Þetta kemur frá Joy og á víst við um einhvern ákveðinn bæ. Hún segir að henni líði eins og hún hafi óvart farið inná karlaklósettið þegar hún fer að djamma þarna. Skemmtilegt. Hlakka til að fara þangað.

Friday, June 27, 2008

Djúpsteikt mars

Loksins fékk ég að smakka "deep fried mars bars" sem er réttur sem á uppruna sinn í skoskri skyndibitabúllu. Hingað til hef ég ekki séð neinn stað sem selur þetta. Svo um daginn vorum við á leið á bar þegar einn úr hópnum ákvað að fara inn á skyndibitastað og spyrja hvort þeir seldu djúpsteikt mars. Afgreiðslumaðurinn varð rosa dularfullur á svip og sagði svo eftir smá umhugsun....."maybe". Það var eins og við værum að biðja um eitthvað ólöglegt. Þetta er náttúrulega kaloríu-fitu-sykurbomba dauðans svo þetta ætti kannski að vera ólöglegt. En ég fékk þarna tvo bita og þetta var nú ekkert sérstakt. Langar að minnsta kosti ekki í þetta aftur. En ég varð að prófa. Næst prófa ég haggis (já ég veit, það verður hræðilegt). Jæja, Maxi hin þýska er farin. Svo nú erum við bara þrjár í íbúðinni. Ég fékk pakka um daginn og í honum var meðal annars íslenskt sælgæti og Séð og Heyrt. Það var unaðslegt að setjast niður og lesa íslenska slúðrið með íslenskt sælgæti. Takk fyrir það fröken Guðrún.
Ég hef alltaf haldið að ég væri borderline alkóhólisti. Ég hef komist að því að svo er ekki og að Íslendingar eru hreint ekki svo miklir drykkjuboltar (með nokkrum undantekningum. Þeir taka það til sín sem eiga). Ég get sagt ykkur að ég held engan veginn í þetta fólk í kringum mig, hvorki í magni né hversu oft þau vilja drekka. Ég sá líka í einhverjum samanburði á Evrópulöndunum í áfengisneyslu að Ísland var frekar neðarlega á listanum. Well, best að taka sig til fyrir Radiohead.

Friday, June 13, 2008

Hvað kom fyrir Corey Haim?

Í alvöru. Ég sá viðtal við hann (sem er líklega ekki alveg glænýtt) og tíminn hefur sko ekki farið mjúkum höndum um hann. Maðurinn var eins og aumingi, feitur, ljótur og hann talaði eins og hann væri 13 ára dópisti. Ok, hann er reyndar dópisti en ég held að barnafrægðin hafi eyðilagt hann. Og hann virðist heldur ekki vera sérstaklega greindur (orðað pent). Ég var geðveikt skotin í honum þegar ég var yngri...ohhh.....hann var svo sætur. Líklega veit enginn um hvern ég er að tala en það skiptir engu.
Ég náði öllum áföngum svo nú er það bara ritgerðin sem er eftir. Það er eins gott að taka sig á með það því planið er að fara til Írlands með Joy í júlí og svo fæ ég gesti í lok júlí. Einkunnir voru skítsæmilegar bara. Ekkert frábærar en líklega í kringum meðallag. Ég tek það. Svo er ég að fara á Radiohead tónleika þarnæstu helgi. Ég viðurkenni að ég er að gera það fyrir Maríu. Ég er enginn sérstakur aðdáandi Radiohead (þó það þyki einstakt) en mér finnst þeir alls ekki slæmir (þetta er ekki eins og U2 phobian mín). Ég er núna að reyna að hlusta á þá og mér finnst margt gott. Jæja, gleymið ekki Corey Haim í kvöldbæninni. Over and out.

Saturday, June 7, 2008

Snillingur hún Leoncie

Ég var að horfa á myndband með Leoncie. Ég hélt það væri nýtt en hún syngur á íslensku svo ég skil ekki alveg. Nema hún sé að koma aftur "heim". Í alvöru talað þá þarf bara einhverja sérstaka hæfileika til að gera þetta. Lagið, textinn, myndbandið, myndatakan, átfittin, augabrúnirnar og hárkollurnar......þetta er brilliant. Hún allavega gladdi mig svakalega.
Köben síðustu helgi var alveg æðisleg. Þvílíkt veður. Magga tók á móti mér á flugvellinum og við eyddum kvöldinu í að þamba jarðaberja mojitos og kokteila. Á föstudaginn fórum við á Strikið, Nyhavn og fleira. Mér fannst alveg magnað að heyra í öllum Íslendingunum og ekki nóg með það að hitta fyrrum vinnufélaga á Strikinu (Ingu Ingimars). Mér fannst það stórskemmtilegt og alls ekki eitthvað sem ég er vön frá Edinborg. Á föstudagskvöldið eftir hvítvínsdrykkju heima fórum við að djamma á Glaða Grísinn. Seinniparti laugardags eyddum við í Tívolíinu. Það var rosalega skemmtilegt. Ég hef ekki komið þangað síðan ég var krakki. Ég og Magga vorum svaka duglegar og fórum í rússíbana og eitthvað annað tæki. Maður er aldrei of gamall í þetta (þó að maður sé nú farinn að róast örlítið). Svo sýndum við snilli okkar í hinum ýmsu leikjum. Ég komst að því að ég hef sérstaka hæfileika í pílukasti og einhvers konar boccia. Magga var töluvert betri með byssurnar. Á sunnudagsmorgun var svo flogið heim.
Annað er ekki í fréttum. Nú eru bara 3 mánuðir í að ég kem heim. Ég er ekki að fatta hvað þetta hefur liðið fljótt. Ég veit ekki hvort ég sé tilbúin í að koma heim.....eða kannski er ég það. Veit einhver um vinnu handa mér ;) Allar tillögur vel þegnar.