Friday, June 27, 2008

Djúpsteikt mars

Loksins fékk ég að smakka "deep fried mars bars" sem er réttur sem á uppruna sinn í skoskri skyndibitabúllu. Hingað til hef ég ekki séð neinn stað sem selur þetta. Svo um daginn vorum við á leið á bar þegar einn úr hópnum ákvað að fara inn á skyndibitastað og spyrja hvort þeir seldu djúpsteikt mars. Afgreiðslumaðurinn varð rosa dularfullur á svip og sagði svo eftir smá umhugsun....."maybe". Það var eins og við værum að biðja um eitthvað ólöglegt. Þetta er náttúrulega kaloríu-fitu-sykurbomba dauðans svo þetta ætti kannski að vera ólöglegt. En ég fékk þarna tvo bita og þetta var nú ekkert sérstakt. Langar að minnsta kosti ekki í þetta aftur. En ég varð að prófa. Næst prófa ég haggis (já ég veit, það verður hræðilegt). Jæja, Maxi hin þýska er farin. Svo nú erum við bara þrjár í íbúðinni. Ég fékk pakka um daginn og í honum var meðal annars íslenskt sælgæti og Séð og Heyrt. Það var unaðslegt að setjast niður og lesa íslenska slúðrið með íslenskt sælgæti. Takk fyrir það fröken Guðrún.
Ég hef alltaf haldið að ég væri borderline alkóhólisti. Ég hef komist að því að svo er ekki og að Íslendingar eru hreint ekki svo miklir drykkjuboltar (með nokkrum undantekningum. Þeir taka það til sín sem eiga). Ég get sagt ykkur að ég held engan veginn í þetta fólk í kringum mig, hvorki í magni né hversu oft þau vilja drekka. Ég sá líka í einhverjum samanburði á Evrópulöndunum í áfengisneyslu að Ísland var frekar neðarlega á listanum. Well, best að taka sig til fyrir Radiohead.

Friday, June 13, 2008

Hvað kom fyrir Corey Haim?

Í alvöru. Ég sá viðtal við hann (sem er líklega ekki alveg glænýtt) og tíminn hefur sko ekki farið mjúkum höndum um hann. Maðurinn var eins og aumingi, feitur, ljótur og hann talaði eins og hann væri 13 ára dópisti. Ok, hann er reyndar dópisti en ég held að barnafrægðin hafi eyðilagt hann. Og hann virðist heldur ekki vera sérstaklega greindur (orðað pent). Ég var geðveikt skotin í honum þegar ég var yngri...ohhh.....hann var svo sætur. Líklega veit enginn um hvern ég er að tala en það skiptir engu.
Ég náði öllum áföngum svo nú er það bara ritgerðin sem er eftir. Það er eins gott að taka sig á með það því planið er að fara til Írlands með Joy í júlí og svo fæ ég gesti í lok júlí. Einkunnir voru skítsæmilegar bara. Ekkert frábærar en líklega í kringum meðallag. Ég tek það. Svo er ég að fara á Radiohead tónleika þarnæstu helgi. Ég viðurkenni að ég er að gera það fyrir Maríu. Ég er enginn sérstakur aðdáandi Radiohead (þó það þyki einstakt) en mér finnst þeir alls ekki slæmir (þetta er ekki eins og U2 phobian mín). Ég er núna að reyna að hlusta á þá og mér finnst margt gott. Jæja, gleymið ekki Corey Haim í kvöldbæninni. Over and out.

Saturday, June 7, 2008

Snillingur hún Leoncie

Ég var að horfa á myndband með Leoncie. Ég hélt það væri nýtt en hún syngur á íslensku svo ég skil ekki alveg. Nema hún sé að koma aftur "heim". Í alvöru talað þá þarf bara einhverja sérstaka hæfileika til að gera þetta. Lagið, textinn, myndbandið, myndatakan, átfittin, augabrúnirnar og hárkollurnar......þetta er brilliant. Hún allavega gladdi mig svakalega.
Köben síðustu helgi var alveg æðisleg. Þvílíkt veður. Magga tók á móti mér á flugvellinum og við eyddum kvöldinu í að þamba jarðaberja mojitos og kokteila. Á föstudaginn fórum við á Strikið, Nyhavn og fleira. Mér fannst alveg magnað að heyra í öllum Íslendingunum og ekki nóg með það að hitta fyrrum vinnufélaga á Strikinu (Ingu Ingimars). Mér fannst það stórskemmtilegt og alls ekki eitthvað sem ég er vön frá Edinborg. Á föstudagskvöldið eftir hvítvínsdrykkju heima fórum við að djamma á Glaða Grísinn. Seinniparti laugardags eyddum við í Tívolíinu. Það var rosalega skemmtilegt. Ég hef ekki komið þangað síðan ég var krakki. Ég og Magga vorum svaka duglegar og fórum í rússíbana og eitthvað annað tæki. Maður er aldrei of gamall í þetta (þó að maður sé nú farinn að róast örlítið). Svo sýndum við snilli okkar í hinum ýmsu leikjum. Ég komst að því að ég hef sérstaka hæfileika í pílukasti og einhvers konar boccia. Magga var töluvert betri með byssurnar. Á sunnudagsmorgun var svo flogið heim.
Annað er ekki í fréttum. Nú eru bara 3 mánuðir í að ég kem heim. Ég er ekki að fatta hvað þetta hefur liðið fljótt. Ég veit ekki hvort ég sé tilbúin í að koma heim.....eða kannski er ég það. Veit einhver um vinnu handa mér ;) Allar tillögur vel þegnar.