Ræktin, ritgerð, bjór, vodki, vín. Það fer nú ekki vel með mann að vera að sulla svona endalaust. En hvað á maður að gera á kvöldin þegar það eru um það bil þúsund pöbbar í kringum mann og maður á ekki sjónvarp. Ég var svaka spennt fyrir Eurovision kvöldinu enda Ísland í úrslitunum. Hérna er lítil stemming fyrir þessu. Ég held það sé aðallega vegna þess að Skotar tengja sig ekki við Breta. Írar og Skotar eru yfirleitt lítið spenntir fyrir Bretum, ef það má segja sem svo. Conor og Joy eiga sjónvarp svo ég tróð mér uppá þau. Reyndar var Joy í Belfast svo það voru bara ég, María og Conor sem nutum keppninnar (því miður komst írski kalkúnninn ekki áfram). Ég hafði nú bara ágætlega gaman af þessu og þessi stig sem komu frá Bretlandi voru pottþétt okkur að þakka. Magga hefur greinilega lagt sitt af mörkum í Danmörku (vona að hún hafi ekki eytt öllum drykkjupeningunum í að kjósa).
Heimilislífið er alltaf soldið sérstakt. Sú ameríska á núna kærasta sem er, ótrúlegt en satt, bæði sætur og vingjarnlegur. Hún er mun geðbetri eftir að hann kom inní myndina. Reyndar var smá drama fyrir nokkrum vikum síðan. Við fengum email frá henni um hvað henni liði illa hérna því það væru mylsnur á gólfunum. Fyrir utan hvað þetta er oft geðveikislegt þá er hún alltaf frekar dónaleg í þessum athugasemdum. Ég nenni ekki að fara í smáatriði, en nægir að segja að það var smá drama sem er nú búið. Reyndar þegar ég hugsa um þetta þá man ég hvað mig langar stundum til að kyrkja hana svo best að ræða þetta ekki frekar.
Yfir í jákvæðari efni.....ég er að fara til Köben á fimmtudaginn að hitta Möggu mína. Ég býst ekki við öðru en endalausri drykkju....ahhhhh......
Guðrún og Þórunn ætla að heimsækja mig í júlí sem verður æðislegt. Bannað að hætta við.
Ég skelli inn sögum frá Köben (ef ég kem þaðan lifandi).
Monday, May 26, 2008
Tuesday, May 13, 2008
Fjölskylduheimsókn og fleira
Nú þegar skólanum er lokið á ég að vera að byrja á lokaritgerðinni minni. Það gengur hægt verð ég að segja. Erfitt að byrja aftur eftir svona törn. Mamma og Anna Guðrún komu í heimsókn þarsíðustu helgi. Það var æðislegt að fá þær. Það var lítið gert af því að túristast en þær vildu þó fara í Mary King´s close sem er túr um götu sem er undir the Royal Mile. Þetta er semsagt gata sem í kringum 1600 og 1700 var verslunargata og fólk bjó við götuna en síðar var byggt yfir. Núna er hún semsagt neðanjarðar og sagt er að þar sé reimt. Það vill svo skemmtilega til að Brandon er að gera rannsókn einmitt í Mary King´s close og ég ásamt fleirum verð að aðstoða hann í vikunni. Ég fæ að fara í túrinn aftur og aftur og aftur.....Það eina sem ég þarf að gera er að aðstoða fólk við að svara spurningalista í sjálfum túrnum. Sumir virðast skynja eitthvað þarna niðri en ég finn ekkert (reyndar fæ ég stundum gæsahúð en það gæti verið vegna þess að það er svalt þarna). Ég á eftir að fara fjórum sinnum í viðbót svo kannski gerist eitthvað seinna. Heilsan er öll betri en ég er enn smá eftir mig. Síðasta helgi var fín en það var hálfgert eldhúspartý hjá okkur. Nokkrir komu yfir og við fórum í drykkjuleiki sem var mjög skemmtilegt. Connor og Rahul fóru ekki fyrr en klukkan 7 um morguninn :S Ég var nú löngu búin á því en hékk þarna eins og góðum gestgjafa sæmir (lá í sófanum hálfsofandi). Við fengum þrumur og eldingar um helgina. Mér fannst það æðislega spennandi. Ég og María vorum að fara í gönguferð í hverfi sem heitir Duddingston og þar er skógur. Ég var ekki á því að hætta við þó það hafi líklega ekki verið skynsamlegt að ganga um skóg með regnhlíf þar að auki. Fleira er held ég ekki í fréttum. Ætli ég skelli ekki inn nokkrum myndum héðan og þaðan í lokin.
Duddingston
Ég, Anna Guðrún og mamma
María, ég Anna Guðrún og Mamma á indverskum veitingastað
Princes street gardens
Subscribe to:
Posts (Atom)