Síðasta vika fór að mestu í lestur og lærdóm. Það er bara hreint ansi mikið að gera. Öll fjölskyldan (sambýlingarnir) er búin að vera á haus. Fólk er að læra fram eftir nóttu og jafnvel sleppt því að sofa. Ég þarf kannski ekki að taka það fram að ég er ekki ein þeirra. Ég fúnkera ekki svefnlaus. Annars er fjölskyldan sátt núna og engin rifrildi.
Á meðan ég man. Ég er farin að tjá mig. Meira að segja vorum við í tíma í dag þar sem við vorum 3 í hóp að ræða rannsóknargrein og ég ákvað að segja frá greininni yfir bekkinn þó að hin tvö í hópnum séu með ensku sem móðurmál :) Ég var svakalega stolt af mér. Tek það fram að þetta var kannski ekki sérlega glæsilegt hjá mér en engu að síður.
Á laugardaginn eldaði Apple kínverskan mat handa okkur. Það var tja...áhugavert. Ég er náttúrulega svakalegur gikkur. En ég hefði borðað þetta hjá henni þó þetta hefði verið hundur með lirfusósu. Ég og María kíktum á pöbb um kvöldið en vorum rólegar að vanda. Á leiðinni heim hittum við stelpu sem býr í húsinu og hún bauð okkur í partý. Það kom reyndar í ljós að það var ekki í gangi svo við drifum okkur heim.
Á sunnudagskvöld var svo Potluck í húsinu mínu og næsta húsi við. Þá komu allir með eitthvað að borða og svo áttum við að mingla. Ég og María erum báðar pínu anti-social. En maður gerir sitt besta í svona aðstæðum. Þetta var allt saman nokkuð áhugavert. Það eru sko allra þjóða kvikindi í húsinu. Við stöldruðum reyndar stutt við enda skóli strax í morgun. Ég hef enn ekki hitt neina Íslendinga (heyrði reyndar í tveimur á laugardaginn) en margir hafa sagt mér að þeir hafi íslenskan bekkjarfélaga. Fólki finnst yfirleitt mjög spennandi að ég sé frá Íslandi og ég hef hitt marga Bjarkaraðdáendur. En ég verð að segja frá einu. Kærasti Tiffany trúði því ekki þegar hún sagði honum hvað ég væri gömul. Hann hélt ég væri yngri en 23 ára :) María hélt líka að ég væri yngri en hún en María er 26 ára. Við erum bara að tala um útlitslega hér. Ég fullvissaði mig um það.
Anyways, Starsailor tónleikar í kvöld og svo kemur Kristín Ó í heimsókn til mín á fimmtudaginn. Lucky me. Líklega best að kíkja aðeins í bækur núna. Maður verður víst að gera það eitthvað líka.
P.S. Mér barst kvörtun um að það gætu ekki allir kommentað. Ég held ég sé búin að laga það núna.